Kristján Baldursson hdl.

löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali, löggiltur leigumiðlari
Vegmúla 4, 108 Reykjavík 546-5050
Um Trausta

Hlutverk og skyldur fasteignasala – stutt yfirlit

Löggildingu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins þarf til að mega hafa milligöngu um kaup, sölu eða skipti á fasteignum. Mikilvægt er því að öll ráðgjöf gegnum allt ferli viðskiptanna sé fengin frá fasteignasalanum.

Hlutverk fasteignasala er að leiða saman kaupanda og seljanda og ber honum að gæta réttmætra hagsmuna beggja. Fasteignasala er skylt er að semja fyrirfram um þóknanir gagnvart kaupanda og greina frá útlögðum kostnaði. Fasteignasali skal tryggja sér ótvírætt umboð frá réttum aðila til þeirrar milligöngu um fasteignaviðskipti sem hann tekur að sér. Hafi hann einkaumboð skal geta þess glögglega.

Fasteignasali skal hafa ábyrgðartryggingu vegna fjártjóns sem leitt getur af störfum hans eða starfsfólks hans.

Fasteignasali skal skoða eign og semja rækilegt yfirlit um aðalatriði sem máli geta skipt við sölu eignarinnar. Hann lýsir eigninni, áhvílandi lánum, verði og söluskilmálum. Hann aflar upplýsinga m.a. um fasteignamat og brunabótamat. Hann ber ábyrgð á því að allar upplýsingarnar séu réttar.
Fasteign í smíðum skal lýst nákvæmlega miðað við þann tíma þegar kaupandi á að taka við eigninni og byggingarstig skal vera í samræmi við staðla.

Fasteignasali skal annast alla skjalagerð
varðandi söluna og hvílir sú skylda á honum að sitja alla fundi þar sem skjöl eru undirrituð hverju nafni sem nefnast. Hann skal leiðbeina kaupanda um gerð tilboðs og gerir drög að kaupsamningi og síðar afsali. Hann útbýr kostnaðaruppgjör milli seljanda og kaupanda varðandi söluna.

Hvað er það sem þú gengur að þegar þú nýtur þjónustu fasteignasala

Fasteignasalar hafa kunnáttu á þeim lögum og reglugerðum sem varða fasteignaviðskiptin þannig að tryggt sé að þú njótir öryggis og þess réttar sem lög gera ráð fyrir.

Fasteignasalar hafa nauðsynlega þekkingu á samnings- og skjalagerð þannig að þú njótir í gegnum allt ferli fasteignaviðskiptanna vandaðrar vinnu fagmanns sem gætir að hagsmunum þínum og tryggir réttarstöðu þína í samningum og skjalagerð.

Fasteignasalar svara öllum þeim spurningum sem þú kannt að hafa og varða fasteignaviðskiptin þín út frá sérfræðiþekkingu sinni og reynslu.

Fasteignasalar aðstoða þig við að útvega öll þau gögn sem nauðsynleg eru í fasteignaviðskiptunum.

Fasteignasalar eru sjálfstæðir og óháðir í störfum sínum og gæta út frá menntun sinni og reynslu hagsmuna bæði kaupanda og seljanda.

Fasteignasalar þurfa að lúta ströngum reglum um það fé sem þeir kunna að hafa milligöngu um.

Fasteignasalar hafa lögboðnar tryggingar þannig að ef mistök henda þá er tjón viðskiptavina bætt.

Allir fasteignasalar eru í Félagi fasteignasala og þurfa þ.a.l. að fylgja ítarlegum siðareglum við störf sín.